Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2013

Kynningarfundur á fimmtudaginn

Næsta fimmtudag ætlum við að kynna störf vinnuhópsins á fundi á vegum Open Knowledge Foundation Iceland.

Markmið okkar er að stunda opin vinnubrögð sjálf og bjóðum öllum sem hafa áhuga á þessum málaflokki að hitta okkur á opnum fundum eða hafa samband hérna gegnum athugasemdakerfið.

Nánari upplýsingar um OKFNis atburðinn má finna á Facebook eða Meetup.com

Auglýsingar

Fyrsta fundi vinnuhópsins lokið

Í dag hittumst við og fórum yfir markmiðin fyrir næstu tvo mánuði. Við ræddum hvaða verkefni væru framundan og hvernig væri best að forgangsraða málum.

Dagskrá fundarins miðaðist við að skilgreina ferli til að opna gögn, skoða hvaða tækni er í boði og hvað nágrannalönd okkar hafa verið að gera í þessum málum.

Eftirfarandi glærur taka á helstu punktum sem ræddir voru á fundinum.

Við ákváðum að tilnefna ríkisreikning fjársýslunnar sem fyrsta gagnasafnið, vinna út frá því að gögnin verði vistuð hjá Island.is og skoða betur CKAN lausnina sem framtíðar tækniumhverfi.

Opið

Þessi vefur er settur upp sem opinn vettvangur starfshóps sem mun vinna að því að birta fjárhagsupplýsingar ríkisins. Hér munum við birta upplýsingar sem verða til á meðan hópurinn starfar. Í anda verkefnisins þá munum við hvetja til opinnar umræðu og óska eftir hugmyndum sem geta hjálpað okkur við að leysa það vel af hendi.

Hér er skipunarbréfið sem við fengum frá Katrínu Júlíusdóttur í vikunni:

Opin stjórnsýsla hefur þróast hratt undanfarin ár. Í nágrannalöndum Íslands, sem og hérlendis, hafa væntingar farið vaxandi um að meira verði birt af gögnum sem liggja fyrir hjá hinu opinbera en gert hefur verið fram til þessa.

Ákveðið hefur verið að stofna starfshóp fjármála- og efnhagsráðherra og forsætisráðherra um opin gögn, sem vinna á að því að birta fjárhagsupplýsingar ríkisins. Miðað er við að hópurinn ljúki störfum fyrir 15. mars 2013. Þér eruð hér með skipaður formaður hópsins.

Starfshópnum eru falin þau verkefni að tilefna gagnasöfn sem verða gerð opinber, tilgreina mörk, svo sem ákveðnar fjárhæðir sem miðað skuli við, tilgreina hversu oft gögnin verða uppfærð, velja leyfisskilmála sem gögnin verða gefin út undir, skilgreina á hvaða sniði og með hvaða tækni gögnin verða gerð aðgengileg, fjalla um möguleika á endurnotkun gagna sem opnuð verða og kanna hver reynsla annarra ríkja er af því að opna gögn.

Helstu rök fyrir því að opna aðgang að gögnum sem í dag eru ekki aðgengileg milliliðalaust eru gegnsæi, þátttaka almennings og aukið traust, sjálfsafgreiðsla á fyrirspurnum, hagræðing í opinberri stjórnsýslu og mat á áhrifum aðgerða, nýsköpun og ný þekking sem fæst með samkeyrslu umfangsmikilla gagnasafna og umbætur í þjónustu og vöruframboði einkaaðila

Starfshópurinn er þannig skipaður:

Finnur Pálmi Magnússon, sérfræðingur í upplýsingatækni, formaður án tilnefningar, Björn Sigurðsson, vefstjóri, tilnefndur af forsætisráðherra, Rebekka Rán Samper, verkefnastjóri, tilnefnd af Island.is, Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri, tilnefnd af innanríkisráðherra, Pétur Jónsson, sérfræðingur, tilnefndur af Fjársýslu ríkisins, Þórlaug Ágústsdóttir, sérfræðingur í upplýsingatækni, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra. Starfsmaður hópsins er Helgi Hjálmtýsson, vefstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.